top of page
Search

Legvatnsleki

Vissir þú að um 8% kvenna missa legvatnið áður en fæðingin hefst? Þegar konur missa legvatnið eru allar líkur á að fæðingin hefjist á næsta sólarhring.

Þegar vatnið fer getur komið "Hollywood" gusa þar sem að konur blotna allt í einu í gegn og vatn lekur niður á læri eða það getur komið hár leki þar sem vatnið seitlar hægt og rólega og getur líkst ríkulegri útferð sem er oft við lok meðgöngunnar.

Þegar vatnið fer eru nokkrir hlutir sem þarf að veita gaum. Í fyrsta lagi, er kollurinn á barninu skorðaður? Ef hann er ekki skorðaður þarf að leggjast beint niður (ekki sækja síma fyrst) og hringja á 112.

Gott að fara í stöðuna sem lati ísbjörninn og styðja sig á framhandleggina eða leggjast niður á bakið og HALDA þeirri stellingu þar til komið er á fæðingastað og ljósmóðir segir að þér sé óhætt breyta um stöðu.


Þá þarf að huga að meðgöngulengd, ef kona er ekki fullmeðgengin þarf hún að setja sig í samband við næsta fæðingastað. Liturinn á legvatninu á að vera glær en hann er stundum bleikleitur vegna smá blæðinga frá leghálsinum. Ef legvatnið er grænt þurfið þið að heyra í næsta fæðingastað það sama gildir um ef það er mikil ólykt af því eða kona er með GBS. Þegar vatnið er farið þarf að huga að hreyfingum barnsins og líkamshita móðurinnar. Ef þið finnið ekki hreyfingar eða breytingar á hreyfingum, fáið hita eða hroll þá hringið þið á næsta fæðingarstað. Eftir að legvatnið fer er ykkur óhætt að fara í bað en maður færi ekki í pottinn í Vesturbæjarlauginni eða stundar kynlíf vegna sýkingarhættu.

Ef kollur er skorðaður og þú fullmeðgengin og hitalaus og legvatnið er tært er þér óhætt að vera heima þar til hríðarnar hefjast og eru orðnar reglulegar og harðar. Um að gera að reyna að hvíla sig og hlaða batteríin fyrir komandi átök.


Stundum eru konur fengnar inn á fæðingastað til að staðfesta legvatnsleka.

Legvatnið er sætt að lykt og oft rekur fólk upp stór augu þegar við þefum af dömubindum en við þekkjum lyktina um leið Eðillegt legvatnsmagn er um 500 ml-1500ml við lok meðgöngu og það er eðlilegt að legvatnið leki alveg þar til barnið fæðist. Líkaminn framleiðir það eftir þörfum svo barnið er ekki á "þurru" landi.

Í gangsetningum gerum við gjarnan gat á belgina en konan finnur ekki fyrir því þegar það er gert að öðru leyti en

að það er gert við innri skoðun. Við notum þá svokallaða belgjaklóru sem er eins og heklunál úr plasti til að gata belgina, oftast eykst sóttin í kjölfarið.


Örfá börn fæðast í því sem við köllum sigurkufl en þá fæðast börnin í belgjunum og það er talið vera fyrir mikilli lukku í lífinu.


Hvernig var það í fæðingunni þinni, misstir þú vatnið fyrir fæðinguna eða fékk ljósmóðirin kannski gusuna þegar barnið fæddist?


 
 
 

Comments


bottom of page